Liverpool komst í úrslitaleikinn á þriðjudagskvöldið en Tottenham tryggði sér farseðilinn í gærkvöldi. Liverpool hefur nú tilkynnt um hvað þessir miðar muni kosta stuðningsmenn félagsins en hvort félag um sig fær samtals 16.613 miða á leikinn.
Tuttugu prósent af miðum Liverpool eru í ódýrasta flokknum og kosta 60 pund stykkið eða 9.600 íslenskar krónur.
54 prósent miðanna munu aftur á móti kosta 154 pund eða tæplega 25 þúsund krónur. 21 prósent miðanna eru enn dýrari og kosta 385 pund sem gera rúm 61 þúsund. Dýrustu miðarnir kosta aftur á móti 82 þúsund krónur stykkið en fimm prósent miða Liverpool eru á 513 pund.
Champions League final ticket prices and allocations have been released.
https://t.co/zYxMmkdwSV#UCL#Spurs#LFC#bbcfootballpic.twitter.com/4wxiZ8fCZK
— BBC Sport (@BBCSport) May 9, 2019
UEFA hefur þegar selt fjögur þúsund miða til áhugafólks út um allan heim en alls tekur Metropolitano leikvangurinn 68 þúsund manns í sæti.
Restin af miðunum fer síðan til staðarhaldara á Metropolitano, Knattspyrnusambands Evrópu, knattspyrnusambanda álfunnar, stuðningsaðila, rétthafa og fyrirtækja.
Liverpool fékk reyndar hundrað miðapör fyrir börn í fylgd með fullorðnum sem kosta 120 pund stykkið eða rúmlega 19 þúsund krónur. Liverpool hefur ekki möguleika á því að fá fleiri miða en það.
Það verða hins vegar 300 miðar í boði fyrir starfsmenn félagsins sem og fjölskyldur og vini leikmannanna.
Þetta er annað árið í röð sem Liverpool fer í úrslitaleik Meistaradeildarinnar en fyrir ári síðan í Kiev kostuðu miðarnir á bilinu 61 til 394 pund. Dýrustu miðarnir í ár eru því mun dýrari en þeir ódýrustu eru á svipuði verði.