Innlent

Fimmtíu lyfja- og hópnauðganir tilkynntar til Stígamóta í fyrra

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta.
Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta. Vísir/vilhelm
Tilkynnt var um 27 lyfjanauðganir í fyrra þar sem brotaþola var byrluð ólyfjan og 23 hópnauðganir þar sem gerendur voru fleiri en einn. Færri leituðu þó til Stígamóta í fyrra vegna kynferðisofbeldis en árið áður.

Þetta kemur fram í ársskýrslu Stígamóta sem kynnt var í gær.

Af þeim sem leituðu til Stígamóta í fyrra voru 47 karlmenn og 311 konur. 35,6 prósent komu vegna nauðgunar, 18 prósent vegna sifjaspella, 9,9 prósent vegna nauðgunartilraunar, 22,3 prósent vegna kynferðislegrar áreitni, 6,1 prósent vegna stafræns kynferðisofbeldis, 3,5 prósent vegna kláms, og 1,8 prósent vegna vændis.

Íslendingar voru í stærstum hluta þeirra sem leituðu til Stígamóta eða um 94 prósent.

Meira en helmingur þeirra sem leituðu til Stígamóta var á aldrinum 18 til 39 ára, en ofbeldið hófst hjá 70 prósentum þeirra sem til þeirra leituðu fyrir 18 ára aldur. Eru það svipaðar niðurstöður og hafa komið fram í ársskýrslum fyrri ára, en þekkt er að fólk leiti sér ekki aðstoðar fyrr en mörgum árum eftir að brotið er á því. Aðeins fóru 7,8 prósent mála þeirra einstaklinga sem leituðu til Stígamóta til opinberra aðila.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×