Forstjóri hins japanska Nippon Luna og forstjóri Mjólkursamsölunnar hafa undirritað viljayfirlýsingu um frekara samstarf í Asíu.
Undirritunin tengist undirbúningi á framleiðslu og sölu á Ísey Skyr í Japan en dótturfyrirtæki Nippon Ham, mjólkurvörufyrirtækið Nippon Luna, gerði framleiðslu og vörumerkjasamning um Ísey Skyr við MS á síðasta ári. Vonir standa til að hægt verði að koma skyrinu í í allt að 50 þúsund verslanir í Japan á næstu árum.
Í tilkynningu frá Mjólkursamsölunni segir að forsvarsmenn Nippon Ham hafi tekið ákvörðun um að gera Ísey Skyr að sinni „aðalheilsuvöru“ - ákvörðun sem sögð er mjög þýðingarmikil fyrir alla markaðssókn sem viðkemur Ísey Skyri í Japan.
„Áætlanir gera ráð fyrir að mikill kraftur verði settur í markaðssetninguna og að koma Ísey vel á kortið áður en Ólympíuleikarnir hefjast í Tókýó árið 2020,“ segir í tilkynningunni og því bætt við að verið sé að ljúka byggingu nýrrar verksmiðju í nágrenni Tókýó sem hefur framleiðslu á Ísey Skyr fyrir Japansmarkað á næstu mánuðum.
Nippon Ham er eitt stærsta fyrirtæki Japans á sviði ferskra og frosinna matvæla og jafnframt fjórði stæsti kjötframleiðandi í heims. Þar starfa 30.000 manns og fyrirtækið veltir um 1.400 milljörðum árlega.

