Erlent

Telur Trump ekki hafa vitað af handtöku Assange

Sylvía Hall skrifar
Kellyanne Conway er ráðgjafi í Hvíta húsinu.
Kellyanne Conway er ráðgjafi í Hvíta húsinu. Vísir/Getty

Kellyanne Conway,  einn nánasti ráðgjafi Donald Trump Bandaríkjaforseta, segist ekki halda að forsetinn hafi vitað að Julian Assange, stofnandi Wikileaks, yrði handtekinn af bresku lögreglunni og ákærður af saksóknurum í Bandaríkjunum. Assange var handtekinn fimmtudag. Reuters greinir frá.



Assange hafði dvalið í sendiráði Ekvadors í London í sjö ár áður en hann var handtekinn en samkvæmt yfirlýsingu lögreglunnar í Bretlandi var henni boðið inn í sendiráðið eftir að Assange missti hæli sitt hjá ekvadorískum yfirvöldum.



Í framhaldinu tilkynntu saksóknarar í Bandaríkjunum að Assange yrði ákærður fyrir samsæri með Chelsea Manning sem leiddi til þess að þau komust yfir leynileg gögn sem var síðar lekið.



Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna segir Assange hafa verið handtekinn á grundvelli framsalssamnings milli Bandaríkjanna og Bretlands en lögfræðingar hans óttast að hann verði fyrir pyndingum af hálfu yfirvalda vestanhafs verði hann framseldur.



Í viðtali við NBC sagðist Conway ekki halda að Trump hefði vitað af handtökunni en hún dragi þá ályktun af samtölum þeirra að hann sé mótfallinn því að upplýsingum sé lekið. Þá ættu þeir sem gera slíkt að hugsa sig þrisvar um.



Ummæli Conway hafa vakið furðu á meðal margra en árið 2016 sagðist Trump „elska Wikileaks“ eftir að síðan birti tölvupósta sem Hillary Clinton hafði sent. Á föstudag tjáði forsetinn sig um handtökuna og sagðist ekki hafa neina skoðun á henni þar sem hann vissi ekkert um Wikileaks.


Tengdar fréttir

Telur rangt að framselja Assange

Corbyn segir það rangt að framselja Assange eftir að hann hafi með blaðamennsku sinni afhjúpað voðaverk Bandaríska hersins sem framin voru í Írak og Afganistan.

Julian Assange handtekinn

Julian Assange, stofnandi Wikileaks, var handtekinn í morgun í sendiráði Ekvadors í London. Þar hefur hann dvalið í sjö ár. Þetta herma breskir miðlar eftir lögreglunni í Bretlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×