Í greinargerð bandarísku alríkislögreglunnar FBI um mál Julians Assange er sérstaklega fjallað um leyniskýrslur bandaríska sendiráðsins um samskipti íslenskra ráðamanna í tengslum við Icesave-málið. Trúnaðargögnunum var lekið til WikiLeaks árið 2010.
Í greinargerð FBI rökstyður Megan Brown, lögreglufulltrúi FBI, málatilbúnaðinn gegn Assange. Honum er gefið að sök að hafa tekið þátt í samsæri um þjófnað á gögnum úr tölvum hins opinbera í samstarfi við Chelsea Manning sem var dæmd fyrir að leka þúsundum trúnaðarskjala til WikiLeaks. Málatilbúnaðurinn byggir meðal annars á afritum af samtölum Assange og Manning.
Assange, stofnandi WikiLeaks, var handtekinn að morgni fimmtudagsins 11. apríl í sendiráði Ekvadors í Lundúnum hvar hann hafði dvalið frá árinu 2012 af ótta við að vera framseldur til Bandaríkjanna.
Í greinargerðinni er einn kafli sem hverfist um leka á trúnaðargögnum bandaríska sendiráðsins um Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og Albert Jónsson fyrrverandi sendiherra Íslands í Bandaríkjunum.
Ástæðan fyrir því að Icesave-lekinn er sérstaklega tilgreindur er sú að hann er talinn varpa frekara ljósi á eðli þeirra gagna sem lekið var. Skrárnar hafi verið skýrt merktar trúnaðargögn.
Í gegnum samskiptakerfi utanríkisþjónustu Bandaríkjanna eða eins konar innra neti er Manning sögð hafa komist yfir skjalið „10 Reykjavik 13“ þar sem fjallað var um Icesave málið.
Manning á að hafa viðurkennt að hafa brennt skjölin á geisladisk 15. febrúar árið 2010, farið með hann heim til sín og hlaðið skjölunum inn í fartölvuna sína og þaðan inn á WikiLeaks. Í greinargerðinni kemur fram að þessi skjöl hafi verið merkt sem trúnaðarskjöl.
Manning er í greinargerðinni sögð hafa skoðað þrjár skrár merktar „Sigurdardottir.pdf,“ „Skarphedinsson.pfd“ og „Jonsson. Pdf.“ en þetta voru leyniskýrslur bandaríska utanríkisráðuneytisins um Jóhönnu, Össur og Albert.