Írska flugfélagið Ryanair er fyrsta fyrirtækið utan kolaiðnaðarins sem kemst inn á lista Evrópusambandsins yfir stærstu mengunarvalda álfunnar. Losun Ryanair á koltvísýringi jókst um tæp sjö prósent í fyrra þrátt fyrir loforð stjórnenda þess að það væri umhverfisvænasta flugfélag Evrópu.
Ryanair er í tíunda sæti listans yfir stórtækustu losendur gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Á undan flugfélaginu á listunum raða sér sjö kolaorkuver í Þýskalandi, eitt í Póllandi og annað í Búlgaríu. Öll brenna þau brúnkolum.
Koltvísýringsmengun frá flugvélum hefur aukist um tvo þriðju frá 2005 og gera spár ráð fyrir að flugiðnaðurinn gæti orðið stærsti mengunarvaldurinn eftir því sem flugfargjöld lækka innan þriggja áratuga.
Í yfirlýsingu frá Ryanair fullyrðir félagið að losun gróðurhúsalofttegunda á hvern floginn kílómetra sé sú minnsta hjá nokkru flugfélagi. Forráðamenn þess lofuðu að bjóða farþegum upp á þann kost að jafna út kolefnislosun við ferðir þeirra.
