Innlent

Ákærður fyrir vopnað rán á Akureyri

Sveinn Arnarsson skrifar
Maðurinn veittist að barþjóni á Akureyri í apríl í fyrra.
Maðurinn veittist að barþjóni á Akureyri í apríl í fyrra. fréttablaðið/pjetur
Héraðssaksóknari hefur ákært mann, búsettan í Reykjavík, fyrir að hafa ráðist að barþjóni á Café Amour á Akureyri í apríl árið 2018. Var hann vopnaður hnífi og hótaði henni að ef hún afhenti honum ekki fjármuni úr sjóðvél staðarins myndi hún hafa verra af.

Það var laugardaginn 9. apríl sem maðurinn kom inn á skemmtistaðinn vopnaður tveimur hnífum og ógnaði þar starfsmanninum, um tvítugri stúlku. Lögreglan var skjót á vettvang og náði á staðinn áður en hann yfirgaf skemmtistaðinn. Ræninginn hlýddi hins vegar ekki fyrirmælum lögreglu og hótaði að drepa lögreglumennina með eggvopnunum sem hann hafði meðferðis. Er hann einnig ákærður fyrir þau brot gegn lögreglulögum og valdstjórninni.

Maðurinn, sem nokkuð oft hefur komið við sögu hjá lögreglunni áður og er henni kunnugur, er einnig ákærður af héraðssaksóknara fyrir brot sem hann framdi þremur vikum áður er hann hótaði lögreglumönnum lífláti við skyldustörf þegar honum var ekið undir áhrifum á lögreglustöð.

Maðurinn gæti átt yfir höfði sér fangelsisdóm fyrir brot þessi, verði hann fundinn sekur. Þess er jafnframt krafist að hann fái ekki aftur umrædd vopn sem tekin voru af honum í aðgerðum lögreglu þennan dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×