Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að tveir stjórnarmenn Eflingar hafi misst vinnu sína vegna þátttöku í verkalýðsbaráttu.
Þetta kemur fram í pistli Sólveigar Önnu þar sem segir, nánar tiltekið: „Bæði þessi atriði eru mjög mikilvæg; ég hef setið á fundi sem fulltrúi Eflingar þar sem tilkynnt var um fjöldauppsögn á íslensku, þrátt fyrir mikinn fjölda starfsmanna af erlendum uppruna og engin tilraun gerð til að túlka það sem fram fór og tveir af stjórnarmeðlimum Eflingar misstu vinnuna vegna aktívrar þátttöku í starfi félagsins.“
Vísir spurði Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóra Eflingar, nánar út í þetta. Hann vildi ekki greina frá því hvaða vinnuveitendur væri um að ræða né hvaða einstaklingar ættu í hlut. En, staðfesti hins vegar orð Sólveigar Önnu.
„Ég get staðfest það að stjórnarmenn hjá okkur, sem voru kosnir í stjórn í Eflingu fyrir ár, hefur ýmist verið sagt upp eða neitað um vaktir. Það er ályktun okkar að það sé ekki tilviljun,“ segir Viðar.
