Sala Heimavalla á eignum hefur gengið betur og hraðar fyrir sig á undanförnum mánuðum en forsvarsmenn íbúðaleigufélagsins gerðu ráð fyrir. Félagið samþykkti þannig ýmist kauptilboð í eða seldi samanlagt 168 íbúðir fyrir tæplega 5,3 milljarða króna á fyrstu tíu vikum ársins.
Þetta var á meðal þess sem fram kom í máli Erlends Magnússonar, stjórnarformanns Heimavalla, á aðalfundi leigufélagsins sem fór fram síðasta fimmtudag.
Félagið samþykkti þannig á fyrstu tíu vikum ársins að selja íbúðir sem nema um níu prósentum af eignasafni þess en félagið átti 1.892 íbúðir í lok síðasta árs.
Í skýrslu stjórnar Heimavalla, sem Erlendur flutti á aðalfundinum, kom fram að í lok þessa árs væri áætlað að fjöldi íbúða yrði um 1.600 og að þeim myndi fækka enn frekar á næsta ári, þrátt fyrir að félagið áformaði að taka við nýjum íbúðum á Hlíðarenda á sama tíma.
Til samanburðar sagðist félagið í nóvember síðastliðnum reikna með því að 1.645 íbúðir yrðu í eignasafninu í lok árs 2020.
Er nú gert ráð fyrir því að heildarfjárbinding leigufélagsins verði að minnsta kosti 20 prósentum lægri í lok árs 2020 í samanburði við bindinguna í lok síðasta árs.
Forsvarsmenn Heimavalla hafa sagt að söluandvirði eigna verði nýtt til þess að meðal annars hraða uppgreiðslu óhagstæðra lána og skuldabréfa félagsins og minnka fjárbindingu hluthafa með endurkaupum á hlutafé. Þá binda þeir vonir við að breytt samsetning eignasafnsins muni bæta arðsemi fjárfestingareigna félagsins.

