Sólveig segir fulltrúa Eflingar hafa sinnt hefðbundinni verkfallsvörslu um allan bæ í dag en þegar komið var á Reykjavík Natura var þeim tilkynnt að verkfallsvörðum yrði ekki hleypt upp á hæðir hótelsins til að sinna vörslunni.
Fulltrúar Eflingar stóðu því í anddyri hótelsins í töluverðan tíma þar til tveimur verkfallsvörðum var hleypt upp á hæðirnar, að sögn Sólveigar.
„Ég get ekki fullyrt hvað okkur grunar að sé í gangi en ég fæ ekki góða tilfinningu þegar við komum á hótel og það er tekið á móti okkur með þessum hætti og meinað að stunda eðlilega verkfallsvörslu,“ segir Sólveig Anna sem bætti við að eftir nokkurt streð fengu fulltrúarnir að fara upp á hæðirnar.

„Það fylgdi ekki sögunni hvort að Dagar væru hér í þrifum sem eiga að vera í Eflingar höndum.“
Kristinn Örn Arnarsson og Edda Margrét Hilmarsdóttir hafa sinnt verkfallsvörslu fyrir Eflingu í dag en þau segja verkfallsbrot mun tíðari í dag en þegar Efling var í síðustu verkfallsaðgerðum fyrr í mánuðinum.
Þau höfðu rekist á þernur, starfsmenn og þjóna á veitingahúsum sem eru rekin undir kennitölum hótelanna. Á einu slíku sáu þau yfirþernu sem greiðir í Eflingu en eftir að þau útskýrðu fyrir henni hver staðan væri lagði hún niður störf og gekk út með þeim.
„Hún var mjög hugrökk,“ sagði Edda Margrét um yfirþernuna.