Bandaríski fjárfestingarsjóðurinn Smallcap World Fund, sem er í stýringu American Funds, bætti við tæplega hálfs prósents eignarhlut, jafnvirði um 1.700 milljóna króna miðað við núverandi gengi bréfa, í síðustu viku og fer núna með um 3,3 prósenta hlut í félaginu. Frá áramótum hefur sjóðurinn, sem er sjöundi stærsti hluthafi fyrirtækisins, tvöfaldað eignarhlut sinn í Marel.
Gildi lífeyrissjóður hélt áfram að minnka við eignarhlut sinn í Marel og seldi um 0,25 prósenta hlut í síðustu viku, sem er metinn á ríflega 900 milljónir króna, og fer nú með 5,9 prósenta hlut í félaginu.
Auk Smallcap World Fund hefur evrópski vogunarsjóðurinn Teleios Capital bætt verulega við sig í Marel frá því í janúar og fer nú með 2,45 prósenta hlut í félaginu að virði liðlega níu milljarða króna.
Hlutabréfaverð í Marel hefur hækkað um meira en 46 prósent frá áramótum. Félagið er langsamlega verðmætasta fyrirtækið í Kauphöllinni með markaðsvirði upp á 357 milljarða króna. Gengi hlutabréfa Marels standa í 541 krónu á hlut og hefur aldrei verið hærra.

