Erlent

Netanyahu: „Ísrael er ekki ríki allra þegna sinna“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Netanyahu er kominn í kosningagír.
Netanyahu er kominn í kosningagír. Amir Levy/Getty
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, segir að þrátt fyrir að allir þegnar ríkisins njóti sömu réttinda óháð uppruna og trú, sé Ísrael ekki ríki allra þegna sinna. Hann segir Ísrael tilheyra gyðingum og engum öðrum.

Forsætisráðherrann átti í skoðanaskiptum við ísraelska leikarann Rotem Sela á samfélagsmiðlinum Instagram þar sem hann lét þessi ummæli, auk annarra, falla. Sela gagnrýndi þar Netanyahu fyrir að skrímslavæða ísraelska araba, sem telja um 17% af heildaríbúafjölda Ísrael.

„Ísrael er ekki ríki allra þegna sinni. Samkvæmt grundvallar þjóðernislögunum sem við samþykktum tilheyrir þjóðríkið Ísrael gyðingum, og aðeins þeim,“ skrifaði Netanyahu meðal annars á Instagram en ummælin hafa valdið miklu fjaðrafoki í heimalandi hans.

„Eins og þú [Sela] skrifaðir þá er ekkert að hinum arabísku þegnum Ísrael. Þeir njóta sömu réttinda og aðrir og ríkisstjórn Likud flokksins hefur fjárfest meira í arabíska geiranum en nokkur önnur ríkisstjórn,“ skrifaði Netanyahu jafnframt.

Margir telja þessi ummæli forsætisráðherrans vera útspil í aðdraganda kosninga, en Ísraelar munu ganga að kjörborðinu þann 9. apríl næstkomandi. Hann hefur einnig varað við því að komist andstæðingar hans til valda muni þeir gefa eftir í afstöðu Ísrael til Palestínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×