Þrenna frá Ronaldo og Juventus sló út Atlético

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ronaldo fagnar í kvöld.
Ronaldo fagnar í kvöld. vísir/getty
Cristiano Ronaldo sá til þess að Juventus komst áfram í Meistaradeildinni í kvöld en hann skoraði þrennu er Juventus vann 3-0 sigur á Atletico Madrid.

Juventus tapaði fyrri leiknum 2-0 og var í erfiðri stöðu fyrir síðari leikinn í Tórínó í kvöld. Atletico hefur ekki verið duglegt að fá á sig mörk og það voru ekki margir sem trúðu á Juventus.

Juventus skoraði snemma leiks er Chiellini kom boltanum í netið. Björn Kuipers, dómari leiksins, dæmdi hins vegar markið af vegna brot á Jan Oblak og eftir myndbandsupptökudóm var það staðfest. Enn markalaust.

Fyrsta markið kom ekki úr óvæntri átt. Á 27. mínútu rataði frábær fyrirgjöf Federico Bernardeschi beint á kollinn á Cristiano Ronaldo sem stangaði boltann í netið.

Juventus réði öllu á vellinum í fyrri hálfleik. Atletico náði ekkert að halda boltanum, varðist rosalega aftarlega en þeir fengu þó færi í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Alvaro Morata skallaði þá yfir úr góðu færi. 1-0 fyrir Juventus í hálfleik.







Það voru ekki liðnar nema þrjár mínútur af síðari hálfleik er Ronaldo var aftur á ferðinni. Aftur skoraði hann með skalla en nú var það fyrirgjöf Joao Cancelo. Jan Oblak varði skotið en marklínutæknin kom að góðum notum þar sem boltinn var kominn yfir línuna er Oblak varði.

Það var svo fjórum mínútum fyrir leikslok sem Juventus fékk vítaspyrnu. Angel Correa braut þá heimskulega á Bernardeschi og það var aldrei spurning um hver myndi taka vítið. Portúgalinn fór á vítapunktinn og innsiglaði þrennuna.

Juventus með 3-0 sigur í kvöld og samanlagt 3-2. Ótrúleg endurkoma hjá þeim og magnaður Ronaldo enn eina ferðina ætlar greinilega að vinna Meistaradeildina fjórða árið í röð.







Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira