Till er fæddur og uppalinn í Liverpool og er mikill stuðningsmaður Rauða hersins. Við stóðumst ekki mátið og spurðum hann aðeins út í enska boltann í dag.
„Ég hafði ekki hugmynd um að það væru fjölmargir stuðningsmenn Liverpool á Íslandi,“ sagði Till steinhissa er honum var sagt frá vinsældum liðsins á Íslandi.
Liverpool er að spila mikilvægan leik gegn Bayern í Þýskalandi í kvöld en fyrri leik liðanna lyktaði með markalausu jafntefli. Till hefur mikla trú á sínum mönnum í kvöld.
„Ég get ekki beðið eftir því að horfa á leikinn í kvöld. Þetta fer 3-0 fyrir okkur og ég er meira að segja búinn að setja pening á leikinn,“ segir Till og hlær. En hvað með deildina? Er þeirra tími loksins kominn?
„Ég vona að þeir láti þetta ekki renna frá sér eins og síðast. Við vorum bjartsýnir fyrir skömmu síðan en höfum svo gefið eftir. Ég vona að þeir taki þetta.“
Gunnar Nelson berst við Bretann Leon Edwards í London næstkomandi laugardag. Bardaginn er í beinni á Stöð 2 Sport. Vísir er í London og mun fylgjast ítarlega með öllu í aðdraganda bardagans.