Davíð Már Bjarnason upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir í samtali við Vísi að maðurinn hafi verið einn á göngu á jöklinum. Hann hafi verið kominn í vandræði og ekki séð fyrir sér að geta klárað ferð sína í versnandi veðri í gærkvöldi.
Maðurinn var fluttur niður jökulinn í snjóbíl en skyggni á jöklinum var afar lélegt, ef marka má mynd af björguninni. Í færslunni kemur fram að björgunarhópar hafi verið sendir af jöklinum, nema sleðahópur frá Höfn sem leitaði skjóls og hvíldar í skálanum á Grímsfjalli.
Tveir bílar sem sendir voru frá Höfn komu í hús á áttunda tímanum í morgun. Þá eru hópar af Suðurlandi og úr Reykjavík, sem kallaðir voru út vegna mannsins, ýmist komnir til baka eða á leiðinni heim.