Ríkisstjórnarfundi lauk í Stjórnarráðshúsinu núna rétt fyrir klukkan 12. Enginn þeirra ráðherra sem fréttastofa ræddi við sagði að breytingar á ríkisstjórninni hafi verið til umræðu en fyrir liggur að skipa þarf nýjan dómsmálaráðherra eftir að Sigríður Á. Andersen sagði af sér embætti í gær. Boðað hefur verið til ríkisráðsfundar klukkan 16 í dag vegna þessa.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hyggst boða þingflokksfund síðar í dag vegna breytinga á ríkisstjórninni. Hann kveðst ekki vera búinn að taka ákvörðun um hver mun taka við dómsmálaráðuneytinu.
Ein af þeim sem nefnd hefur verið sem mögulegur dómsmálaráðherra er Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Aðspurð hvort hún ætti von á því að taka við dómsmálaráðuneytinu sagði hún að ekki væri búið að ákveða hver myndi taka við því. Spurð hvort hún myndi taka jákvætt í slíka bón vildi hún lítið að segja um og sagði að það væri samtal sem hún þyrfti að eiga við formann Sjálfstæðisflokksins.
