Það er alltaf sama ferlið hjá Gunnari á vigtunardegi. Hann fer í heitt bað og lætur svo pakka sér inn í handklæði og sæng á eftir. Þar liggur hann svo í klukkutíma og kílóin hrynja af.
Vigtunin fór fram á sama hóteli og Gunnar býr á. Þegar hann var kominn í rétta þyngd tók hann lyftuna bara niður og nánast stökk beint á vigtina.
Gunnar hefur verið á sérstöku fæði alla vikuna og það hélt áfram eftir vigtunina. Bæði sérstakir drykkir og matur til þess að ná aftur upp orku.
Gunnar Nelson berst við Bretann Leon Edwards í London í kvöld. Bardaginn er í beinni á Stöð 2 Sport. Vísir er í London og mun fylgjast ítarlega með öllu í aðdraganda bardagans sem og bardaganum sjálfum.