Níu ökumenn hafa verið kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum á síðustu dögum, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum.
Sá sem hraðast ók var erlendur ferðamaður en bifreið hans mældist á 141 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund. Hraðaksturinn varð honum dýrkeyptur því sektin nemur 210 þúsund krónum.
Þá voru skráningarnúmer fjarlægð af sjö bifreiðum sem ýmist voru óskoðaðar eða ótryggðar. Lögregla sektaði jafnframt á annan tug bifreiða sem var ólöglega lagt.
