Þrumur og eldingar hafa mælst á hafi úti en ekki var gert ráð fyrir að veðrið næði inn á land.
Eldingarnar munu vera töluvert meiri en hefur sést undanfarin ár samkvæmt Veðurstofunni, fyrstu eldingarnar komu upp á land um tíu mínútur í sjö og má búast við því að eldingum muni slá niður á Höfuðborgarsvæðinu næsta klukkutímann en veðrið mun þá halda í norður.
Veðurstofa vill benda fólki á að vera ekki úti við á meðan veðrið gengur yfir, best er að vera inni við eða inni í bíl. Hér má sjá leiðbeiningar Veðurstofu um viðbrögð við þrumum og eldingum.
Blaðamaður Vísis var staddur í Vesturbæjarlauginni í Reykjavík þegar fimm eða sex eldingar birtust og þrumurnar í framhaldinu. Þá skall á nokkuð mikið haglél um tíma. Sundæfingar héldu þó áfram og gestir í heitu pottunum horfðu hver á annan og virtust velta fyrir sér hvort þetta væri besti staðurinn til að vera á meðan eldingar blossuðu.