Handbolti

Aðalsteinn hafði betur gegn Arnóri

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Aðalsteinn Eyjólfsson
Aðalsteinn Eyjólfsson vísir
Lærisveinar Aðalsteins Eyjólfssonar í Erlangen höfðu betur gegn Arnóri Þór Gunnarssyni og félögum í Bergischer í Íslendingaslag í þýsku Bundesligunni í handbolta í kvöld.

Arnór Þór hafði hægar um sig en oft áður í kvöld og skoraði aðeins tvö af mörkum Bergischer. Allt lið Bergischer var þó frekar rólegt í markaskorun og skoraði liðið aðeins 18 mörk gegn 26 mörkum Erlangen.

Heimamenn í Erlangen voru 12-9 yfir í hálfleik og breikkuðu bilið hægt og rólega í þeim seinni.

Bjarki Már Elísson skoraði þrjú mörk fyrir Füchse Berlin sem tapaði fyrir Hannover-Burgdorf.

Kai Häfner skoraði sigurmarkið fyrir Hannover á 59. mínútu og kom þeim yfir 26-25 en gestirnir frá Berlín voru yfir þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum.

Drengirnir hans Alfreðs Gíslasonar í Kiel völtuðu yfir Gummersbach 22-35 þar sem Niclas Ekberg skoraði níu mörk. Gísli Þorgeir Kristjánsson er enn fjarverandi í liði Kiel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×