„Það eru fjölmörg dæmi um lítil byggðarlög sem þola ekki slík áföll. Þetta var gríðarlegt högg og margir skelkaðir en það var voðalega lítið verið að kvarta. Þess í stað fór fólk beint í að hugsa í lausnum og snúa vörn í sókn,“ segir Greta Mjöll Samúelsdóttir, atvinnu- og menningarmálafulltrúi Djúpavogshrepps.
Þótt Vísir færi lagðist fiskvinnsla ekki af. Fyrirtækið lét útgerðina Búlandstind hafa fasteignir sínar á staðnum án endurgjalds gegn því að stöðug vinnsla yrði í húsunum næstu fimm ár. Þar er verkaður fiskur sem landað er á staðnum en að auki sér starfsfólk um slátrun fyrir Fiskeldi Austfjarða og Laxa ehf.
„Það framtak var gífurlega mikilvægt. Þar voru á ferð hugrakkir einstaklingar, heimamenn sem tóku við keflinu, héldu þessu á floti og gott betur en það,“ segir Greta Mjöll.

Nefnir Greta meðal annars til sögunnar að á tíma hafi systur á staðnum starfrækt fyrirtæki sem sérhæfir sig í innanhússhönnun.
Þá er framtak hjónanna Berglindar Häsler og Svavars Péturs Eysteinssonar, sem einnig er þekktur sem Prins Póló, mörgum kunnugt.
Þau fluttu á Karlsstaði í Berufirði og starfrækja þar gistiheimili, tónleikastað, kaffihús og snakkgerð undir merkjum Havarí.
Þá hefur ferðaþjónusta vaxið og dafnað í hreppnum líkt og víða annars staðar.
Lögð var áhersla á fjölbreytta atvinnuuppbyggingu og það hefur átt sinn þátt í því að mæta þeim höggum sem brjóta mörg samfélög niður.
„Annað dæmi eru eggin í Gleðivík. Þar var byggt upp en stuttu síðar kom höggið og vinnslu var hætt í Bræðslunni og bryggjan stóð ónotuð. Þau mannvirki fengu glænýjan tilgang og þjóna nú meðal annars sem listagallerí og aðdráttarafl,“ segir Greta Mjöll. Hún nefnir einnig að Djúpavogshreppur hafi fengið Cittaslow-vottunina 2013 en hún á rætur að rekja til Ítalíu. „Þetta er stundum kölluð hæglætisstefna. Þar eru umhverfismálin í fyrirrúmi og lögð áhersla á að bæta lífsgæði fólks, hægja á og sporna við þeirri hraðaáráttu sem nú er allsráðandi.“
Að sögn Gretu Mjallar er eitt vandamál hreppsins nú, líkt og annars staðar, skortur á húsnæði. Nú í vor bætist við nýtt fullbúið hús á staðnum og nýverið var tekin fyrsta skóflustunga að öðru einbýlishúsi. „Stefnan er að vera eitt glaðasta sveitarfélagið á landinu. Fólkið hér er gríðarlega gestrisið og gott hingað að koma. Það er eitthvað sem þú kaupir ekki úti í búð,“ segir Greta Mjöll að lokum.