Landsbankinn sér framkvæmdastjórum sínum sex og bankastjóra fyrir bifreiðum og annast rekstur þeirra að fullu. Bankinn hafnaði beiðni Fréttablaðsins um upplýsingar um kaupverð og hvaða bíltegundir um er að ræða.
Bankinn segir að bílarnir sem bankastjórnendurnir fá til fullra afnota séu á af árgerðum 2010 til 2016.
Líkt og Fréttablaðið fjallaði um á laugardag þá samanstanda laun bankastjóra og framkvæmdastjóranna sex af launum og bifreiðahlunnindum.
Í ráðningarsamningunum er kveðið á um heildarlaun en þar segir að starfsmenn geti farið fram á að bankinn sjái þeim fyrir bifreið.
Geri þeir það lækka laun þeirra sem nemur tekjumati ríkisskattstjóra fyrir viðkomandi bifreið.
Viðkomandi starfsmenn greiða hlunnindaskatt samkvæmt tekjumati ríkisskattstjóra. Í ljósi 17 prósenta launahækkunar bankastjóra Landsbankans á síðasta ári óskaði Fréttablaðið eftir upplýsingum um hækkanir framkvæmdastjóranna.
Í ársreikningi eru laun sexmenninganna ekki sundurliðuð en heildarlaun og hlunnindi námu 199,6 milljónum króna á síðasta ári.
Landsbankinn segir að meðaltal launa framkvæmdastjóranna sex hafi hækkað úr 2,6 milljónum króna á mánuði árið 2017 í 2,8 milljónir að meðaltali. Eða 7 prósent.
„Skýrist hækkun á þessum lið að mestu vegna kjarasamningsbundinna hækkana,“ segir í svari bankans.

