„Ég fékk lyklana afhenta fyrir tveimur vikum og við erum búin að vinna nánast allan sólarhringinn,“ segir Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson sem opnar í dag verslunina Super1 við Hallveigarstíg. Verslunin kemur í stað Bónuss sem var lokað í janúar.
Sigurður Pálmi hyggst verða eins konar kaupmaður á horninu. „Það verður meira úrval og lengri opnunartími. Ef einhver vill koma á framfæri ábendingum þá er bara nóg að koma, ég verð hér alla daga,“ segir hann.
Sjá einnig: Danir koma að opnun nýrra matvöruverslana
Sigurður Pálmi segir að Super1 muni einbeita sér að vörum í minni pakkningum, lífrænum vörum og umhverfisvænum. Áhersla verði á að þjónusta gangandi vegfarendur.
„Við verðum með litlar pakkningar og þá verður hægt að kaupa allt sem vantar og ganga með það heim.“
Segja má að verslunarrekstur sé Sigurði Pálma í blóð borinn; afi hans, Pálmi Jónsson, stofnaði Hagkaup. „Ég ólst upp við þetta, þetta er bara áhugamálið mitt.“ Á þriðja tug starfa í nýju versluninni. Margir voru áður í Bónus. „Ég er ofboðslega þakklátur fyrir að hafa svona hóp af fólki með mikla reynslu og þekkingu, annars hefði þetta aldrei tekist,“ segir Sigurður Pálmi.
Kaupmaður á horninu opnar á Hallveigarstíg

Tengdar fréttir

Danir koma að opnun nýrra matvöruverslana
Verslunarkeðjan Super 1 mun fylla í skarð þriggja Bónusverslana sem loka á höfuðborgarsvæðinu á næstu vikum.