Eftir tvö banaslys í fyrra á veginum um Kjalarnes blossuðu upp umræður um öryggi vegfarenda. Vegamálastjóri sagði þjóðveginn hættulegan og brýnt væri að skilja að akstursstefnur. Bæjarstjórn Akraness krafðist þess að samgönguyfirvöld brygðust tafarlaust við hættulegu ástandi vegarins og stóð fyrir íbúafundi um málið.
Í samgönguáætlun sem lögð var fyrir Alþingi í haust var gert ráð fyrir að samtals einum milljarði króna yrði varið til endurbóta á veginum á þessu og næsta ári. Þessi fjárhæð hefur nú verið lækkuð um 600 milljónir króna, samkvæmt breytingartillögu, sem umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis lagði fram í gær, en þar er gert ráð fyrir 200 milljónum í veginn um Kjalarnes í ár og öðrum 200 milljónum á næsta ári.
Í greinargerð er gefin sú skýring að verkhönnun og samningum við landeigendur vegna þess verkefnis sé ólokið og því ljóst að ekki verði hægt að fara í það fyrr en í fyrsta lagi seint á árinu 2019.

Nefndin tekur þó fram að lækkun fjárveitingar um 200 milljónir króna til Kjalarness ætti ekki að hafa áhrif á framvindu verksins eða seinka því enda sé gert ráð fyrir gjaldtöku á þeirri leið, og er vísað til yfirlits um hvaða vegaframkvæmdir verði fjármagnaðar með vegtollum.
Núna er gert ráð fyrir að fyrsta stóra fjárveiting samgönguáætlunar til Kjalarness, 1.640 milljónir króna, verði árið 2021.