Mercedes-Benz leikvangurinn sem hýsir Super Bowl leikinn í NFL-fótboltanum í ár er mögnuð bygging.
Það verður mikið um dýrðir í Atlanta á sunnudagskvöldið þegar lið New England Patriots og Los Angeles Rams spila til úrslita um NFL-titilinn í Super Bowl LIII.
Leikvangurinn sjálfur er án vafa ein af stjörnum leiksins enda sá nýjasti og að margra mati flottasti leikvangur NFL-deildarinnar.
Super Bowl fer nú fram í 53. skiptið og að þessu sinni verður hann spilaður á Mercedes-Benz leikvanginum í Atlanta borg í Georgíu fylki. Þessi leikvangur er heimavöllur NFL-liðsins Atlanta Falcons og þar spilar líka Atlanta United í Major League Soccer deildinni.
Leikvangurinn er glænýr en hann var tekinn í notkun árið 2017 og kostaði tvo milljarða dollara eða rúman 241 milljarð íslenskra króna. Leikvangurinn er meðal annars með opnanlegu þaki og er auk þess með heimsins stærsta skjá á leikvangi sem þessum.
Eignandi leikvangsins og Atlanta Falcons hefur líka fengið mikið hrós fyrir að halda öllum verðum á drykkjum og veitingum niðri en á mörgum leikvöngum í NFL-deildinni kosta slíkar veitingar heldur betur skildinginn.
CBS sýnir Super Bowl leikinn í Bandaríkjunum eins og Stöð 2 Sport á Íslandi. Útsending Stöðvar 2 Sport hefst klukkan 22.00 á sunnudagskvöldið og verður viðamikil að vanda.
Fréttamaður CBS fékk að fara í heimsókn á Mercedes-Benz leikvanginn í tilefni af Super Bowl leiknum og setti saman fróðlega frétt sem má sjá hér fyrir neðan. Þetta er fróðleg útsýnisferð sem sýnir vel hversu svakalega bygging þetta er.
