Handbolti

Íslendingarnir frábærir í dramatískum sigri Kristianstad

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ólafur í leik með Kristianstad.
Ólafur í leik með Kristianstad. vísir/getty
Ólafur Guðmundsson var í miklu stuði er Kristianstad vann enn einn leikinn í sænsku úrvalsdeildinni er liðið vann eins marks sigur á Redbergslids, 29-28.

Jafnræði var með liðunum allan fyrri hálfleikinn en afar mikið var skorað. Staðan var jöfn 16-16 er liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik.

Í síðari hálfleik var sama spenna og þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum var allt jafnt, 25-25. Meistararnir reyndust sterkari á lokasprettinum og höfðu að lokum betur, 29-28.

Ólafur var markahæsti leikmaður vallarins í kvöld en hann skoraði sex mörk í kvöld. Selfyssingurinn Teitur Örn Einarsson skoraði fimm mörk og Arnar Freyr Arnarsson skoraði þrjú mörk.

Kristianstad er á toppnum með 40 stig, níu stigum á undan Skövde sem er í öðru sætinu en Redbergslids er í fimmta sæti deildarinnar.

Ólafur Gústafsson skoraði eitt mark úr tveimur skotum er KIF Kolding tapaði með tveimur mörkum, 26-24, fyrir Nordsjælland á heimavelli eftir að hafa verið tveimur mörkum yfir í hálfleik, 14-12.

Ólafur var einnig einu sinni sendur í kælingu en liðið er í tíunda sæti deildarinnar og er eins og staðan er núna á leið í umspil um sæti í deild þeirra bestu á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×