Lögreglumenn, slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn auk sérsveitarmanna sýndu fumlaus og öguð viðbrögð í erfiðum aðstæðum en atvikið átti sér stað á göngubrúnni yfir Miklubraut við Kringluna um miðjan dag. En íranskur hælisleitandi, sem fréttastofan hefur áður fjallað um, hótaði að skaða sig. Mikill viðbúnaður var vegna málsins og var umferð um Miklubraut var stöðvuð í báðar áttir og fjöldi gangandi vegfarenda, bæði barna og fullorðinna fylgdust með þegar maðurinn reyndi að vekja athygli á stöðu sinni með þessum hætti.

Ný hættur í hungurverkfalli
Rauði krossinn hefur haft miklar áhyggjur af manninum en fyrir um tveimur vikum fjallaði fréttastofan um málefni hans þegar hann var á tólfta degi hungurverkfalls. Maðurinn er bæði andlega og líkamlega veikur og hóf hungurverkfallið, að hans sögn, eftir hafa ekki fengið nauðsynlega læknisaðstoð, en hann hefur verið sár þjáður af gyllinæð og þá segist hann glíma við andleg veikindi sem hann fái ekki nauðsynleg lyf við.Fram kom í fréttum Stöðvar 2 á sínum tíma að geðheilbrigðismál í hæliskerfinu hafi aldrei verið þyngri en áfallateymi Rauða krossins var kallað út þrisvar sinnum oftar á síðastliðnu ári miðað við árið á undan vegna mála sambærilegra og íranski flóttamaðurinn glímir við.
Samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossinum frá því fyrir tveimur vikum var maðurinn metin í sérstaklega viðkvæmri stöðu þar sem hann er bæði andlega og líkamlega veikur en vegna þess að veikindi hans eru ekki lífshættuleg falli þau utan þeirrar heilbrigðisþjónustu sem hælisleitendur eigi rétt á. Því þurfi að fara fram sérstakt mat á mikilvægi þjónustunnar sem Útlendingastofnun lætur framkvæma en það ferli geti tekið langan tíma.
Rauði krossinn baðst undan viðtali vegna málsins í dag og sagði málefni mannsins í höndum lögreglu. Unnið sé að því að veita honum viðeigandi aðstoð.