Erlent

Mannræningjarnir höfðu samband við fjölskylduna þann 16. janúar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Anne-Elisabeth Falkevik Hagen var rænt af heimili sínu þann 31. október síðastliðinn. Mannræningjarnir hafa krafist yfir milljarðs íslenskra króna í órekjanlegri rafmynt.
Anne-Elisabeth Falkevik Hagen var rænt af heimili sínu þann 31. október síðastliðinn. Mannræningjarnir hafa krafist yfir milljarðs íslenskra króna í órekjanlegri rafmynt.
Lögmaður fjölskyldu Anne-Elisabeth Hagen, konunnar sem rænt var af heimili sínu í Lørenskógi, segir að mannræningjarnir hafi sett sig í samband við fjölskylduna fyrr í þessum mánuði. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem lögmaðurinn boðaði til í Ósló í dag.

„Miðvikudaginn 16. janúar fékk fjölskyldan skilaboð frá þeim sem segjast hafa rænt Anne-Elisabeth Hagen,“ sagði Svein Holden, lögmaður Hagen-fjölskyldunnar á blaðamannafundinum í dag.

„Við höfum farið vandlega yfir þessi skilaboð með lögreglu og ákváðum að nú væri rétti tíminn fyrir mig að koma fram í fjölmiðlum og greina frá því að skilaboðin bárust í gegnum sama stafræna vettvang og ræningjarnir hafa áður notað til að hafa samband. Skilaboðin voru hvorki sönnun þess efnis að Anne-Elisabeth sé á lífi né að sendandi hafi Anne-Elisbaeth í haldi í dag.“

Svein Holden, lögmaður Hagen-fjölskyldunnar, á blaðamannafundi þann 9. janúar síðastliðinn.EPA/TORE MEEK
Holden kveðst ekki munu tjá sig frekar um efni skilaboðanna eða hvaða skilaboðaforrit ræningjarnir notuðu til að setja sig í samband við fjölskylduna. Þó túlki fjölskyldan skilaboðin sem svo að Anne-Elisabeth sé á lífi og að henni verði komið heilu og höldnu í faðm fjölskyldunnar á ný.

Aðspurður vildi Holden ekki svara því hvort Hagen-fjölskyldan sé tilbúin til þess að borga lausnargjaldið sem mannræningjarnir hafa krafist, sem jafngildir yfir milljarði íslenskra króna í órekjanlegri rafmynt. Þó hafi lausnargjaldið verið rætt innan fjölskyldunnar. Þá sé það afar mikilvægt fyrir fjölskylduna að fá það staðfest að Anne-Elisabeth sé á lífi áður en lengra er haldið í viðræðum við ræningjana.

Anne-Elisabeth er ein ríkasta kona Noregs og gift milljarðamæringnum Tom Hagen. Ekkert hefur spurst til hennar síðan 31. október síðastliðinn en gengið er út frá því að henni hafi verið rænt af heimili sínu. Í gær hófst leit við Langavatn, stöðuvatn um hundrað metrum frá húsi hjónanna í Lørenskógi, en lögregla leitar þar að vísbendingum í tengslum við hvarfið.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×