Naomi Osaka vann síðasta risamót, Opna bandaríska meistaramótið, í september en tók þá á móti bikarnum með tárin í augunum eftir að Serena Williams hafði misst sig fyrir dómarann.
Osaka getur orðið fyrsta konan frá árinu 2001 sem fylgir eftir fyrsta risatitli sínum með því að vinna næsta risamót á eftir. Jennifer Capriati afrekaði það síðasta fyrir átján árum.
The world number one ranking will be on the line when Naomi Osaka and Petra Kvitova meet in Saturday's #AusOpen final.
Match preview https://t.co/lVP2I3yfbvpic.twitter.com/0mDljYxsPT
— BBC Sport (@BBCSport) January 25, 2019
Sigur Petra Kvitova gæti líka orðið merkilegur því hún væri þá að kóróna endurkomu sína eftir að hafa verið stungin á heimili sínum árið 2016. Kvitova hefur unnið tvo risatitla á ferlinum og voru þeir báðir á Wimbledon-mótinu.
Það er ekki bara risatitill undir því sigurvegarinn mun einnig taka fyrsta sæti heimslistans af Simona Halep.
Naomi Osaka var í fjórða sæti á styrkleikalistanum í þessu móti en Petra Kvitova var númer átta.
Petra Kvitova, sem er 28 ára, hefur efst komist í annað sætið á heimslistanum og það var fyrir rúmum sjö árum eða í október 2011. Hún var í sjötta sæti á síðasta heimslistanum sem var gefinn út 14. janúar síðastliðinn.
Naomi Osaka, sem er 21 árs, er eins og er í fjórða sæti heimslistans og hefur aldrei verið ofar en hún komst þangað fyrst í október síðastliðnum.
Úrslitaleikurinn í einliðaleik kvenna fer fram á morgun laugardag en úrslitaleikur karlanna fer fram á sunnudaginn og þar mætast þeir Novak Djokovic frá Serbíu og Rafael Nadal frá Spáni.
