Varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, Jón Gunnarsson, sem haft hefur forystu um upptöku veggjalda í þinginu, segir stefnt að því að samgönguáætlun verði afgreidd úr þingnefndinni í fyrramálið með stefnumörkun um veggjöld. Samgönguráðherra muni síðan flytja sérstakt frumvarp um veggjöldin á vordögum. Alþingi þurfi svo að taka samgönguáætlun upp að nýju í haust sem taki mið af veggjöldum.
Hjá Vegagerðinni höfðu menn vonast til að samgönguáætlun kláraðist fyrir jól.
„Það má segjast að fyrir okkur sem stöndum í framkvæmdum að það sé heilmikil áskorun að gera áætlanir þegar samgöngutillögur liggja fyrir Alþingi og samþykktir eru að dragast svolítið á langinn,“ segir Óskar Örn Jónsson, forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar.

„Við höfum ekkert farið leynt með það að við myndum vilja sjá aðeins lengra fram í tímann til að skipuleggja okkar vinnu,“ segir Óskar.
Samkomulag náðist í þinginu um að klára samgönguáætlun fyrir 1. febrúar, sem er á föstudag. Þangað til eru aðeins þrír fundardagar. Núna er það spurningin hvort veggjöldin tefji málið ennþá frekar og þar með útboð Vegagerðarinnar.
„Við höfum rekið okkur á það að þegar við bjóðum út þegar allir verktakar hafa ráðstafað sér yfir sumartímann þá fáum við fá tilboð og há verð. Þannig að það er mikið í mun fyrir okkur að sjá fram í tímann og bjóða út verk núna bara á þessum mánuðum,“ segir forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2.