Þættirnir heita Katalonski og eru sýndir á katalónsku sjónvarpsstöðinni TV3. Þáttastjórnandinn er Halldór Már Stefánsson, tónlistarmaður, en hann hefur búið í Katalóníu í 25 ár og talar reipirennandi katalónsku. Þáttaröðin hefur verið endurnýjuð fyrir aðra seríu og hefst fyrsti þáttur á Íslandi. Undanfarna daga hefur teymið haft upp á katalónskumælandi Íslendingum.
„Við höfum farið til Sikileyjar, Berlínar, Japans, Ástralíu,“ segir Halldór Már. „Við reynum svona yfirleitt að hafa svona fimm viðmælendur í þættinum og við höfum fundið fimm hér á Íslandi. Það eru nú ekki margir Íslendingar sem tala katalónsku.“

„Það er meira að segja fólk sem hefur aldrei komið til Katalóníu sem talar katalónsku,“ segir hann. „Þetta finnst Katalónum vera mjög merkilegt og ég gæti trúað því að Íslendingum þætti það jafn merkilegt að heyra af fjölda fólks um allan heims sem tala íslensku og eru ekki íslensk.“
Undanfarið hefur fjöldi Katalóníubúa barist fyrir sjálfstæði héraðsins frá Spáni og sjálfstæðisbaráttan mikið í fréttum. Oriol Gispert leikstjóri þáttanna segir katalónska tungumálið þjóðinni mikilvægt í því að viðhalda sterkri sjálfsmynd.
„Tungumál er svo sterkt fyrirbæri,“ segir hann. „Við eigum ekki okkar eigið ríki en við eigum okkar menningu og tungumál. Við viljum varðveita tungumálið og við erum mjög stolt af því að vita að margir utan Katalóníu vilji læra málið. Það er mjög fallegt.“