Árshækkun vísitölu leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu mældist 9,2 prósent í nóvember en til samanburðar hækkaði vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu um sex prósent.
Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs um fasteignamarkaðinn en þar segir að þetta hafi verið níundi mánuðurinn í röð þar sem árshækkun leiguverðs mældist meiri en árshækkun íbúðaverðs.
Þá reynist leigumarkaðurinn vera hvað virkastur í vesturhluta höfuðborgarsvæðisins.
„Í nóvember var 19% allra þinglýstra leigusamninga á landinu öllu vegna leigusamninga á svæðinu vestan við Kringlumýrarbraut að Seltjarnarnesi. Flestir samningar á því svæði voru vegna tveggja herbergja íbúða og var meðalfermetraverð slíkrar íbúðar rúmlega 3.000 kr.,“ segir í tilkynningu Íbúðalánasjóðs vegna skýrslunnar.
Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að heildarfjöldi kaupsamninga vegna íbúðarhúsnæðis hafi aukist um þrjú prósent árið 2018 miðað við fyrra ár.
„Þar af var 5,3% aukning á höfuðborgarsvæðinu frá árinu áður og 7,4 % í þéttbýliskjörnum næst höfuðborgarsvæðinu, auk Akureyrar. Hins vegar mælist 12,4% samdráttur á öðrum svæðum á landinu milli áranna 2018 og 2019. Velta með íbúðir nam rúmlega 482 milljörðum króna á árinu 2018 sem er um 6,8% veltuaukning frá fyrra ári. Viðskipti með íbúðir í fjölbýli voru um 70,2% af heildaríbúðaviðskiptum árið 2018, samanborið við 67,8% árið áður og 67,2% árið 2016,“ segir í tilkynningu Íbúðalánasjóðs en nánar má fræðast um mánaðarskýrsluna hér.

