Þeir sem ekkert vilja vita um innihald myndarinnar eða næstu Marvel-mynda ættu ekki að lesa lengra. Stikluna má sjá hér fyrir neðan:
Enn á eftir að frumsýna myndina Captain Marvel, sem Brie Larson leikur, í mars næstkomandi en Marvel-menn hafa gefið út að um sé að ræða öflugustu Marvel-hetjuna sem mun hafa ýmislegt að segja um söguþráð næstu Avengers-myndarinnar sem hefur hefur hlotið nafnið Endgame og verður sýnd í apríl.
Þeir sem sáu Avengers: Infinity War vita væntanlega að Peter Parker, eða Spider-Man, varð að dufti í lok þeirrar myndar ásamt milljöðrum annarra eftir að Thanos hafði lokið ætlunarverki sínu með því að smella fingrum sínum.
Hvernig hetjurnar sem eftir lifðu ná að vinda ofan af þeim gjörningi er óljóst en ýmsir hafa nefnt að Captain Marvel gæti haft eitthvað um það að segja og jafnvel eitthvað form af tímaflakki. En þetta er þó allt á huldu sem stendur og fæst ekki endanlega svarað fyrr en í apríl.
Eitt er víst að Peter Parker, leikinn af Tom Holland, mun aftur líta dagsins ljós og mætir sprelllifandi til leiks í Far From Home þar sem hann fer í ferðalag til Evrópu en hittir þar hann fyrir ofurnjósnarann Nick Fury, leikinn af Samuel L. Jackson, sem einnig varð að dufti í Infinity War, sem tilkynnir Parker að það sé verk að vinna.
Í stiklunni virðist glitta í Sandmanninn og Vatnsmanninn, eða Hydro Man, en aðalskúrkurinn í myndinni er sagður Mysterio, leikinn af Jake Gyllenhaall. Hvort hann verður sannur skúrkur á þó eftir að koma í ljós en í stiklunni er honum lýst sem blöndu af Iron Man og Thor.