Erlent

Myrt í miðju símtali við systur sína

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Myndir úr öryggismyndavél sem teknar voru af Maasarwe kvöldið sem hún var myrt.
Myndir úr öryggismyndavél sem teknar voru af Maasarwe kvöldið sem hún var myrt. Mynd/Victoria Police
Ísraelsk kona var myrt í áströlsku borginni Melbourne í gær en ráðist var á hana þegar hún var að ræða við systur sína í símann. BBC greinir frá.

Lík hinnar 21 árs Aiia Maasarwe fannst í grennd við LaTrobe-háskólann í norðurhluta Melbourne á fimmtudagsmorgun. Maasarwe hafði tekið sporvagn heim til sín seint á miðvikudagskvöldið að lokinni uppistandssýningu og átti í samræðum við systur sína í gegnum síma á leiðinni.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu heyrði systir Maasarwe þegar ráðist var á hana og síminn datt í gólfið. Þá kveðst systirin hafa heyrt raddir á vettvangi í gegnum símann en hún hringdi áhyggjufull í lögreglu rétt áður en lík Maasarwe fannst á fimmtudagsmorgun.

Lögregla hefur ekki útilokað að Maasarwe hafi verið nauðgað áður en hún var myrt en morðingjans er nú leitað. Þá fannst svört derhúfa með tölustöfunum 1986 og grár stuttermabolur skammt frá líkfundarstaðnum en lögregla hefur munina til rannsóknar. Einnig verða upptökur úr öryggismyndavélum í nágrenninnu skoðaðar í leit að morðingjanum.

Maasarwe var nemi í kínversku og ensku við háskóla í Sjanghæ í Kína. Hún var í skiptinámi við LaTrobe-háskóla í Melbourne þegar hún var myrt.

Morðið á Maasarwe þykir minna um margt á morðið á grínistanum Eurydice Dixon, sem var nauðgað og síðar myrt á leið sinni heim af uppistandi í Melbourne í fyrra. Málið vakti mikla reiði í Ástralíu og í kjölfarið skapaðist umræða um ofbeldi gegn konum í landinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×