Andstæðingar hvalveiða hafa löngum bent á að þær gætu haft slæm áhrif á ímynd Íslands erlendis og gætu haft það í för með sér að komum ferðamanna hingað til lands myndi fækka. Einn maður hefur haldið því lengi fram að svo sé ekki en það er Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf.
Kristján hefur kynnt sér innihald skýrslunnar en hann segir að niðurstöður hennar séu í takt við það sem hann reiknaði með. „Það hefði verið skrýtið hefði þetta verið öðruvísi,“ segir Kristján í samtali við Vísi.
Árið 2009 komu tæplega fimm hundruð þúsund erlendir ferðamenn til Íslands. Sama ár voru lög sett um hvalveiðar í atvinnuskyni. Kristján segir að frá árinu 2009 hafi Íslendingar veitt hvali, reyndar með hléum, en á þeim tíma hefur erlendum ferðamönnum fjölgað mikið en rúmar tvær milljónir ferðamanna komu hingað til lands í fyrra.
„Þeir sem eru á móti hvalveiðum héldu því fram að erlendir ferðamenn myndu fælast frá Íslandi. Þetta er hlægilegt af þessu fólki að láta svona,“ segir Kristján og bendir á að hlutfall Bandaríkjamanna í heildarfjölda ferðamanna í fyrra hafi numið 30 prósentum.

Fjallað var um hvalveiðar Íslendinga í heimildarmynd sem kom út í fyrra en þar var rætt við Kristján sem fullyrti að rekja mætti fjölda ferðamanna hér á landi til hvalveiða. Sagði Kristján í myndinni að fólk sé áhugasamt um að koma til Íslands og skoða hvali og smakka hvalkjöt. Það fáist hvergi annarsstaðar í heiminum.
„Er það eitthvað óraunhæft?“ spyr Kristján í samtali við Vísi í dag.
Í skýrslu Hagfræðistofnunar kemur fram að skilgreina megi fleiri hvalategundir sem nytjastofn en með því er í reynd verið að mæla með frekari hvalveiðum. Kristján tekur undir þetta og bendir á að það megi vel hefja veiðar á sandreyði en sá stofn sé upp á tíu til fimmtán þúsund dýr að mati Kristjáns sem sjáist mikið af í ágúst og september við Íslandsstrendur.
Kristján segir áhugaverðustu niðurstöðu þessarar skýrslu vera að sjá hversu mikið hvalirnir taki til sín. Þeir gangi á aðra nytjastofna.
„Allt þarf þetta að éta og þeir koma hérna á sumrin til að éta. Þeir eru ekkert í megrun, þetta tekur til sín og hefur áhrif á annað ef þeim fjölgar úr hófi fram. Sá kafli er eitthvað sem menn ættu að hafa áhyggjur af.“