Listamaðurinn Sunneva Ása Weisshappel opnar á morgun sýninguna Umbreyting í Gallery Port við Laugaveg 23.
Sýningin opnar klukkan 16:00 en Sunneva útskrifaðist af myndlistarbraut við Listaháskóla Íslands árið 2013. Í kjölfarið stofnaði hún Algera Studio. Hún rak stúdíóið í þrjú ár og hélt þar fjölda viðburða og sýninga ásamt meðlimum Algera.
Sýningin Umbreyting er fyrsta einkasýning Sunnevu eftir útskrift.
Í myndlist Sunnevu er sjálfinu gjarnan stillt upp sem rannsóknarvettvangi til að skoða og spegla samtímann. Sunneva Ása hefur sýnt myndlist sína víða, hér heima og erlendis, og unnið í residensíum. Myndlistin er fremsta víglínan í rannsóknarvinnu Sunnevu, þaðan sem hún sækir efnivið í aðra miðla.
Þá hefur Sunneva Ása leikstýrt og unnið við gerð fjölda tónlistarmyndbanda og fengið tilnefningar til verðlauna, bæði hérlendis og erlendis. Frumraun Sunnevu Ásu í búningahönnun fyrir leikhús var Njála og hlaut hún Grímuverðlaun 2015 fyrir búningana í þeirri sýningu.
Hún hefur í framhaldi unnið aðallega erlendis við búningahönnun en jafnframt sinnt myndbandagerð og kóreógrafíu fyrir leikhúsverk, óperu og ballet.
Sunneva Ása með fyrstu einkasýninguna í Port
