Erlent

Reka spillingarrannsakendur SÞ úr landi

Kjartan Kjartansson skrifar
Spillingarrannsóknin hefur í auknum mæli beinst að Morales forseta og fjölskyldu hans.
Spillingarrannsóknin hefur í auknum mæli beinst að Morales forseta og fjölskyldu hans. Vísir/EPA
Stjórnvöld í Gvatemala hafa gefið fulltrúum nefndar Sameinuðu þjóðanna sem rannsakar spillingu sólahring til að yfirgefa landið. Utanríkisráðherra landsins segir að „misskiliningur“ hafi átt sér stað í rannsókn nefndarinnar á Jimmy Morales forseta.

Saksóknarar í Gvatemala hafa sakað Morales um að hafa fjármagnað lögbrot í kosningabaráttu hans árið 2015. Alþjóðleg nefnd gegn refsileysi í Gvatemala (CICIG), sem komið var á fót til að styrkja réttarríkið í landinu árið 2006, hefur reynt að ákæra Morales, að sögn breska ríkisútvarpsins.

Upphaflega studdi Morales, sem tók við völdum árið 2016, störf alþjóðlegu nefndarinnar sem hefur tekið þátt í að sækja tugi háttsettra embættismanna og forstjóra til saka. Þegar böndin tóku að berast að honum sjálfum sagðist forsetinn ætla að endurskoða umboð nefndarinnar.

Sandra Jovel, utanríkisráðherra Gvatemala, sagði í gær að Morales héldi áfram að berjast gegn spillingu en að „misskilnings“ gætti um rannsókn á málefnum hans.

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hitti Jovel í gær. Í yfirlýsingu eftir fundinn sagði Guterres mótmæla harðlega ákvörðun ríkisstjórnar Gvatemala og sagði hana verða að halda sig við alþjóðlega samninga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×