„Það var góð tilfinning að snerta Garðskagavita og ljúka þannig 700 km göngunni með öllu þessu góða fólki sem deildi gleðinni með mér,“ segir Ásmundur í Facebook-færslu sinni.
Hann segir að lokaáfangi göngunnar, sem tekin var í fjölmörgum áföngum yfir árið, hafi hafist með „yndisstund“ í Keflavíkurkirkju. Þá hafi fjöldi fólks slegist í hópinn þennan síðasta spöl, sem lauk með súpu hjá eiginkonu hans, Sigríði Magnúsdóttur.
Þá færir Ásmundur öllum sem lögðu honum lið á göngunni bestu þakkir fyrir, enda hafi aðstæður ekki alltaf verið eins og best verði á kosið.
„Margir hafa keyrt mig og sótt víða um kjördæmið en göngutíminn hefur ekki alltaf verið á kristilegum tíma. Oft lagði ég af stað fjögur á morgnanna til að losna við mestu umferðina. Ég fékk allar gerðir af veðurfari á leiðinni. Mest var -10 gráðu frost, oft ringdi hressilega og vindurinn fór nokkuð hratt yfir. Flestir áfangarnir voru 20-25 km. en sá lengsti frá Vegamótum að Ölvusárbrú á Selfossi var 33 km á 1. maí.“
Ásmundur greindi frá áramótaheitinu þann 2. Janúar á þessu ári. Hann sagðist í samtali við Vísi á sínum tíma hafa undirbúið sig markvisst til þess að geta látið drauminn rætast.
Ferðalög Ásmundar um kjördæmi sitt hafa ítrekað ratað í fréttir á árinu en hann er sá þingmaður sem fékk hæstu greiðsluna árið 2017 vegna ferða á eigin bíl. Aksturskotnaður Ásmundar frá árinu 2013 til og með 2018 nemur rúmum 23 milljónum króna.