Hljómsveitin Umbra heldur árlega jólatónleika sína í kvöld, 20. desember, klukkan 20 í Háteigskirkju. Yfirskrift þeirra er Sólhvörf og þar mun ríkja kyrrð og hugljúf stemning við kertaljós, að sögn kvennanna sem sveitina skipa.
Á efnisskránni verða meðal annars sjaldheyrð jólalög frá miðöldum, bæði íslensk og erlend og öll í útsetningum Umbru. Mörg laganna er að finna á glænýrri jólaplötu hópsins, Sólhvörf, sem var tekin upp í Laugarneskirkju í upphafi árs og er nýkomin út hjá Dimmu. Nafn útgáfufélagsins er í anda Umbru og plötunnar því „í myrkrinu má nefnilega hvílast og endurnærast og á vetrarsólstöðum má að ósekju líta til þeirrar birtu og vonar sem er að finna handan þorra og góu“, benda meðlimir sveitarinnar á.
Sérstakir gestaleikarar á tónleikunum verða Þórdís Gerður Jónsdóttir á selló og Matthías Hemstock á slagverk.
Umbra er nýkomin heim frá Kaupmannahöfn þar sem hópurinn hélt vel sótta tónleika í Frihavnskirken, með eigin efnisskrá. Hópurinn frumflutti líka nýtt verk eftir tónskáldið Finn Karlsson í Koncertkirken þann 21. nóvember, á debut-tónleikum hans á vegum Konunglega tónlistarháskólans í Kaupmannahöfn.
Vekja forn þjóðlög eða gleymda lagboða til lífsins
