Alls hafa níu manns látið lífið í tengslum við mótmælaaðgerðir „gulvestunga“ í Frakklandi síðustu vikurnar.
Nýjasta dauðsfallið átti sér stað í bænum Agen í suðvesturhluta landsins fyrr í dag þar sem ekið var á karlmann á sjötugsaldri þar sem hann mótmælti á hringtorgi.
„Þetta var einn af gulvestungum sem mótmælti utandyra en fylgdi ekki öryggisreglum í umferðinni,“ sagði franski innanríkisráðherrann Christophe Castaner fyrr í dag.
Flest dauðsfallanna níu hafa átt sér stað í umferðinni þar sem mótmælendur hafa stöðvað umferð á vegum og hringtorgum víðs vegar um landið.
Mótmæli gulvestunganna hófust um miðjan nóvember. Upphaflega beindust mótmælin að fyrirhuguðum hækkunum stjórnar Emmanuel Macron Frakklandsforseta á eldsneytissköttum, en eftir því sem á leið hafa þau beinst að Macron-stjórninni í heild.
