Arnór varð dýrasti leikmaður Norrköping frá upphafi þegar rússneska stórveldið hann keypti hann fyrr á þessu ári. Hann var fljótur að aðlagast nýju félagi og er nú fastamaður í byrjunarliði þess, bæði í rússnesku deildinni sem og Meistaradeildinni.
Hann er hógvær og tekur greinilega þeim miklu breytingum sem hafa verið á hans lífi á skömmum tíma með stóískri ró. Hann viðurkennir þó fúslega að hlutirnir hafa gerst hraðar en hann reiknaði með.

Arnór setur stefnuna enn hærra, bæði með félagsliði sínu og íslenska landsliðinu. Hann segir lykilatriði að hafa trú á því að það sé hægt að láta alla sína drauma rætast.
„Fyrir þetta tímabil vissu ekki margir hver ég væri. En fyrir stráka sem eru í þessum sporum á þessum aldri þá er aðalmálið að trúa því að þú getir náð eins langt og þú vilt. Að leggja eins mikið og þú getur á þig til að ná þínum markmiðum - og auðvitað að eiga þann draum að ná sem lengst.“
Arnóri líður vel í Moskvu og er ekki byrjaður að hugsa um næsta skref á sínum ferli.
„Ég reyni að hugsa ekki of langt fram í tímann. Ég hugsa bara um næsta ár og það er mikilvægur seinni partur af tímabilinu í Rússlandi sem hefst í febrúar. Fókusinn minn er algerlega á að gera vel þar.“