Lilja Rannveig er formaður Sambands ungra Framsóknarmanna, hún er 22 ára og með þeim allra yngstu sem hafa sest á þing hér á landi. Jómfrúarræða hennar fjallaði um nauðsyn þess að nemendur af landsbyggðinni eigi þess kost að dvelja á heimavist á höfuðborgarsvæðinu og njóti þannig jafnréttis til náms á við þá sem þar búa. Skyldi hún hafa verið með ræðuna tilbúna í skúffunni lengi?
„Mér hefur að minnsta kosti lengi verið þetta málefni hugleikið og skrifaði grein um það í Fréttablaðið vorið 2016. Það eru tólf heimavistir á landinu fyrir framhaldsskólanema, en engin þeirra á höfuðborgarsvæðinu, þar sem framboð náms er þó mest,“ segir Lilja Rannveig sem gerði meira en að halda ræðu um efnið á Alþingi. Hún bar líka fram þingsályktunartillögu um að menntamálaráðherra beitti sér fyrir uppbyggingu slíkrar heimavistar.

Nú lærir Lilja Rannveig til kennara, í fjarnámi og er skólaliði í Grunnskóla Borgarfjarðar á Varmalandi, auk þess að sinna syninum Hauki Axel Ólafssyni sem varð eins árs fyrir nokkrum dögum og kom í afmælisheimsókn á Alþingi. „Haukur er fyrirburi og við foreldrarnir eyddum síðustu jólum á vökudeildinni með honum. Hann er kallaður „varaþingmaður“ af sumum vegna þess að ég var ólétt í kosningabaráttunni!“
Unnusta sínum, Ólafi Daða Birgissyni, kynntist Lilja Rannveig í Versló. Nú búa þau í Bakkakoti í Stafholtstungum, þar sem hún ólst upp. Hún segir þau ekki vera með búskap en aðstoða foreldra hennar af og til við að sinna kindum og hestum. „Mamma og pabbi eru í næsta húsi og amma og afi í öðru,“ lýsir hún. „Þannig að eftir að við fluttum heim eru fjórir ættliðir á einum bletti.“