Að því er segir í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra verður Suðurlandsvegur lokaður um óákveðinn tíma vegna slyssins. Í tilkynningu frá lögreglu segir að búast megi við því að vegurinn verði lokaður í nokkra klukkutíma.
Sveinn Kristján Rúnarsson hjá lögreglunni á Suðurlandi segir að sjö manns hafi verið í bílnum. Nokkrir séu alvarlega slasaðir og þá eru einhverjir enn fastir í bílnum. Verið sé að reyna að ná þeim út en bíllinn fór ekki í ána.
Á vef Vegagerðarinnar má sjá að að hálka er á Suðurlandsvegi en stillt veður og eins gráðu hiti. Sveinn Kristján segir þokkalegt veður á vettvangi en hálkublettir í kring.
Báðar þyrlur Landhelgisgæslunnar voru kallaðar út vegna slyssins og eru á leið á vettvang. Allt tiltækt lið viðbragðsaðila á Suðurlandi var einnig kallað út sem og björgunarsveitir frá Höfn og alveg að Selfossi verið kallaðar út.
Uppfært klukkan 11:03:
Að sögn Sveins Kristjáns er enn verið að vinna í því að bjarga fólki úr bílnum. Þyrla Landhelgisgæslunnar kom við á Selfossi þar sem hún sótti slökkviliðsmenn sem höfðu klippur meðferðis til að ná fólki úr bílnum. Flutti þyrlan einnig lækna á vettvang. Einhverjir farþeganna eru alvarlega slasaðir en ekki liggur fyrir hversu margir.
Fréttin var síðast uppfærð klukkan 11:47.
