Alls voru sjö manns í bíl, jeppa af gerðinni Toyota Land Cruiser, sem fór fram af brúnni yfir Núpsvötn og steyptist niður í áraurana.
Allir þeir sem voru í bílnum eru breskir ríkisborgarar. Þrír þeirra létust í slysinu, tveir fullorðnir og ungt barn, og fjórir slösuðust alvarlega, tveir fullorðnir og börn á aldrinum 7 til 9 ára.
Búið er að hífa bílinn upp og verður hann fluttur í bíltæknirannsókn á Selfoss þar sem tveir hinna látnu verða klipptir út úr bílnum en slík vinna fer ekki fram á vettvangi.
Spurður út í aðstæður á vettvangi og hvort að hálka hafi verið á brúnni kveðst Sveinn ekki vita það. Hitastigið sé þó þannig að það gæti hafa myndast ísing á brúnni. Þá er brúargólfið stálþil og það gæti verið að það hafi verið sleipt ef raki var á brúnni.
Allir þeir sem slösuðust voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Reykjavíkur.