Hinn svokallaði næturstrætó hélt í sína fyrstu ferð í upphafi árs, undir þeim formerkjum að um tilraunaverkefni til eins árs væri að ræða. Ekið hefur verið eftir sex leiðum, sem ýmist hefjast við Stjórnarráðið eða Hlemm. Fyrsta ferð hefur lagt af stað úr miðborginni um klukkan 1 en sú síðasta á fjórða tímanum.
Sjá einnig: Fyrsta ferðin með næturstrætó ævintýri líkust
Um miðjan október var hins vegar greint frá því að framtíð næturakstursins væri óljós. Ágætis nýting væri á tveimur leiðum af sex en minni á hinum fjórum og því væri til umræðu hjá stjórn Strætó hvort áfram ætti að bjóða upp á þessa þjónustu á nýju ári - og þá hvernig.
Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, segir í svari við fyrirspurn fréttastofu að nú liggi hins vegar fyrir að næturstrætóinn muni áfram aka um götur borgarinnar eftir áramót. Hugsanlega verði þó gerðar breytingar síðar á árinu á þeim leiðum sem eru minna notaðar, vísar hann þar til leiða 102, 103, 105 og 111. Það verði þó auglýst betur þegar endanleg ákvörðun stjórnarinnar liggur fyrir.
Hér að neðan má sjá farþegatölur Strætó fyrir árið 2018, að frátöldum desember. Þar má sjá að notkun næturvagnanna er sérstaklega mæld, en að sögn Guðmundar er að finna búnað í meirihluta vagnanna sem mælir innstig. Þannig geti Strætó fylgst með farþegafjölda.
Fjöldi innstiga 2018 | |||
| Almennar leiðir | Næturleiðir | Samtals |
Janúar | 956000 | 1700 | 957700 |
Febrúar | 929000 | 2100 | 931100 |
Mars | 1016000 | 2200 | 1018200 |
Apríl | 941000 | 1900 | 942900 |
Maí | 905000 | 2100 | 907100 |
Júní | 870000 | 2400 | 872400 |
Júlí | 782000 | 2200 | 784200 |
Ágúst | 949000 | 2800 | 951800 |
September | 1013000 | 2600 | 1015600 |
Október | 1108000 | 1900 | 1109900 |
Nóvember | 1094000 | 2100 | 1096100 |