Texasbúinn Richard Overton er látinn, 112 ára að aldri. Overton var talinn elsti maður Bandaríkjanna áður en hann dó á endurhæfingarstöð í Austin. Hann hafði nýlega verið lagður inn vegna lungnabólgu.
Overton var í bandaríska hernum í síðari heimsstyrjöldinni og hafði eitt sinn látið hafa eftir sér að leyndarmálið að langlífinu væri viskídrykkja og vindlareykingar sem hann stundaði grimmt á verönd heimilis síns í Austin. Árið 2013 var Overton heiðraður af Barack Obama, þáverandi Bandaríkjaforseta á degi uppgjafahermanna (e. Veterans Day).
