Í rökstuðningi Financial Times segir meðal annars að Soros hafi verið ötull baráttumaður fyrir frjálslyndi, lýðræði og opnum samfélögum. Hann hefur látið mikið fé af hendi rakna til ýmissa samtaka og einstaklinga sem deila þessum hugðarefnum hans - en fyrir vikið skapað sér mikla óvild á hinum þjóðernissinnaða hægri væng stjórnmálanna.
Í því samhengi má nefna forsætisráðherra heimalands hans, Viktor Orbán, sem er í sérstaklega mikilli nöp við Soros. Til að mynda komu stjórnvöld Orbán því um kring í upphafi mánaðar að háskóla einum í Búdapest, sem nýtur fjárstuðnings Soros, verður gert að yfirgefa höfuðborgina.
Soros, sem er 88 ára gamall, var metinn á um 8 milljarða bandaríkjadala í upphafi árs en talið er að hann hafi gefið hið minnsta 32 milljarða dala til góðgerða- og baráttusinna í gegnum tíðina.
Nánar má fræðast um útnefninguna og rökstuðninginn fyrir henni á vef Financial Times.
