Það er gaman að sjá Maríu Jónsdóttur og Sigurð stemma saman, hún að verða 101 árs og hann að verða 80 ára. Sigurður segir að María sé ein af bestu kvæðakonum landsins.
„Ég veit ekki um aðra kvæðakonu sem er meira en 100 ára gömul en María verður lokaatriðið á diski sem ég er að gefa út fyrir jólin með sextíu sönglögum og nokkrum kvæðalögum þar á meðal“, segir Sigurður.
María byrjaði að kveða 10 ára gömul og hefur kveðið fjölbreytt kvæðalög í gegnum árin. Hún lærði að kveða hjá pabba sínum. María skilur hins vegar ekkert í því af hverju hún er orðin svona gömul.
„Það hefur aldrei verið mín ósk að vera svona gömul en ég hef aldrei hugsað um það hvað ég verði gömul“, segir María og hefur engar áhyggjur af því að skaparinn hafi gleymt henni, hún hafi ekki gleymt honum.
María er mikil listakona, nú er hún til dæmis að hekla fallegar sessur.
Sigurður fer hér að lokum með kveðskap eftir Sigurð Breiðfjörð.
