Fram kom í gærkvöldi að til standi að ljúka við gerð samkomulagsins við Indigo eins fljótt og auðið verður eftir áreiðanleikakönnun. Skilmálar viðskiptanna voru ekki gefnir upp í tilkynningu frá Skúla Mogensen, forstjóra WOW Air í gær.
Sjá einnig: WOW air verður „ofurlággjaldaflugfélag“ ef Indigo fylgir sömu stefnu
Indigo Partners eru með höfuðstöðvar í Phoenix í Bandaríkjunum. Félagið fjárfestir í flugiðnaði og er aðalfjárfestirinn í Tiger Airways í Singapúr og Spirit Airlines á Flórída. Þá er Indigo einn stærsti hluthafinn í flugfélögunum Volaris Airlines í Mexíkó, JetSmart í Síle og hinu ungverska Wizz air sem flýgur meðal annars til og frá Íslandi.
Bandaríkjamaðurinn William A. Franke stofnaði Indigo árið 2003. Hann fæddist í Texas árið 1937, ólst upp í Suður-Ameríku og útskrifaðist úr Stanfordháskóla.
Sjálfskipaður faðir lággjaldalíkansins
Franke hefur verið lýst sem heilanum á bak við stofnun lágfargjaldaflugfélaga í Bandaríkjunum, og virðist sjálfur sama sinnis en í umfjöllun Bloomberg um kaup Indigo Partners á 430 Airbus-vélum er hann sagður sjálfskipaður „faðir lággjaldaviðskiptalíkansins“. Þá hafi hann leitað leiða undanfarin ár til að koma í veg fyrir hækkandi rekstrarkostnað, þ.e. „veginn til helvítis“ líkt og Franke kemst sjálfur að orði.
Klókur kaupsýslumaður sem skrúfar niður verð
Fjallað hefur verið um bráðabirgðasamkomulag Wow Air og Indigo í erlendum fjölmiðlum síðan kunngjört var um hann í gær, og samkomulagið gjarnan sett í samhengi við áherslur Franke í viðskiptum.Í umfjöllun Skift sem birtist í gær er Franke lýst sem „hands on“ fjárfesti, þ.e. að hann beiti sér sjálfur í rekstri flugfélaga sinna og fylgist náið með þeim. Þá sé hann þekktur fyrir nokkuð „ofstæki“ gagnvart verðlagningu en umfram allt teljist hann klókur kaupsýslumaður, sem sé harður í horn að taka í samningaviðræðum.

Tækifæri fyrir Skúla að viðhalda vörumerkinu
En hvert er viðskiptalíkan Indigo og Franke?Steinn Logi Björnsson, forstjóri Bluebird Nordic, sagði í samtali við fréttastofu í hádeginu að ofurlággjaldamódelið grundvallist á því að taka alla þjónustuliði úr fargjaldinu – og þar sé gengið mun lengra en Wow Air hefur gert. Þá sé launakostnaður lægri og leitast sé við að halda vélum félaganna eins mikið í loftinu og hægt er til að hámarka afköst.
Í nýrri frétt viðskiptamiðilsins Forbes er Indigo sagt forkólfur „ofurlággjalda“. Höfundur segir jafnframt að Wow Air gæti notið góðs af fjárfestingu Indigo, gangi samningar þess efnis eftir. Þá nefnir hún að þó að Tiger Airways hafi fatast flugið hafi hin flugfélög Indigo blómstrað undir handleiðslu Franke.
„Ólíkt uppbyggingu Icelandairsamningsins sem fallið var frá myndi hinn nýi samningur veita Mogensen tækifæri til að viðhalda vörumerkinu og sanna virði þess,“ skrifar Marisa Garcia, sem fjallar um flugmál fyrir Forbes.
„Aðkoma Indigo er mikilvæg stuðningsyfirlýsing við íslenska flugfélagið og lífvænleika lággjaldaviðskiptalíkansins til langframa.“