„Þetta er í raun og veru þannig að þegar koma svona góðviðrisdagar og göturnar ná að þorna og verða alveg þurrar þá fer rykið að þyrlast upp vegna umferðar svo um leið og snjóar eða rignir þá dettur þetta niður aftur,“ segir Alfreð Schiöth sviðsstjóri mengunarvarna hjá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra í samtali við fréttastofu.
„Þetta [svifrykið] ríkur upp og niður dálítið skarpt en þetta eru að verða of margir dagar og of háir toppar,“ segir Alfreð um ástand loftgæða fyrir norðan.

Alfreð segir að allt sé autt og þurrt fyrir norðan og í raun eins og sumardagur.
„Bakhliðin á þessu er að núna liggur allur sandurinn á götunum sem notaður var í hálkunni hérna um daginn og þyrlast upp og fer illa í þá sem eru veikir fyrir og gæti jafnvel spillt fyrir þeim sem eru hraustir.“
Á morgun blæs Akureyrarbær til vinnufundar ásamt sérfræðingi frá Umhverfisstofnun vegna málsins því mikilvægt sé að bregðast við hratt og ákveðið til lágmarka mengunina.
„Bærinn er núna að þrífa götur og skoða hvað hann getur gert. Það er hugsanlegt að nota rykbindiefni til að hjálpa á svona dögum þannig að það þyrlist ekki upp. Þetta snýst um það að lágmarka ryk á götunum með því að þrífa þær og lágmarka notkun á sandi og eftir atvikum nota rykbindiefni. Um leið og snjóar eða rignir þá losna menn undan þessari áþján í bili.“
En eru Akureyringarnir ekki bara of duglegir að nota einkabílinn?
„Jájá, ég veit það ekki svosem. Það eru náttúrulega styttri vegalengdir hérna heldur en í Reykjavík þannig að væntanlega eru menn að eyða minni tíma í bíl en menn fara mikið á bíl,“ segir Alfreð sem bætir við það sé ókeypis í almenningssamgöngur á Akureyri og að bæjarbúar séu duglegir við að nota Strætó. Það sé þó alveg rétt að of margir noti einkabílinn við þau tækifæri sem vel væri hægt að ganga eða hjóla.
Alfreð segir að hálkuvarnir séu ákveðið vandamál því sandur er mikið notaður í frosti og hálku.
Alfreð segir að það sé hluti af stefnumótun Akureyrarbæjar að draga úr sandnotkun. Hann telur þó ástæðu til að hraða ferlinu.
„Hann [sandurinn] molnar á götunum og pússar þær og býr til ennþá meira ryk og svo þyrlast hann bara upp.“